Flugklúbbur Mosfellsbæjar var stofnaður af 14 flugáhugamönnum þann 29. Maí 1981, en hét þá reyndar Flugklúbbur Mosfellssveitar. Nafni klúbbsins var svo breytt í Flugklúbb Mosfellsbæjar þegar Mosfellssveit varð að Mosfellsbæ árið 1987.

Frá upphafi hefur tilgangur klúbbsins verið að:

  • Að stuðla að framgangi flugmála.
  • Að halda uppi samvinnu, félagslífi og stuðla að fræðandi starfi meðal félaga.
  • Að vinna að hagsmuna- og áhugamálum félaga.
  • Að halda uppi sambandi við hliðstæð félög innanlands.

Nokkru áður en flugklúbburinn var stofnaður höfðu nokkrir flugmenn lent á mel á bökkum Leirvogsár og má segja að það hafi verið kveikjan að Flugklúbbnum. Leyfi fékkst hjá hreppsnefnd Mosfellssveitar til að setja upp aðstöðu fyrir flugklúbbinn á melnum við Leirvogsá og vinna við að slétta melinn og búa til formlega flugbraut hófst vorið 1982. Fljótlega var einnig ráðist í byggingu fyrsta flugskýlis klúbbsins. Fyrsta klúbbhúsið leit einnig dagsins ljós, en það var færanlegur vinnuskúr sem stóð undir hlið flugskýlisins. Núverandi klúbbhús var byggt í kringum árið 1990. Árið 1990 samþykktu bæjaryfirvöld nýtt deiliskipulag fyrir svæðið þar sem í mikilli bjartsýni var gert ráð fyrir allt að sex flugskýlum á flugvellinum. Þessi flugskýli hafa nú öll verið byggð og telst svæðið því fullbyggt í núverandi mynd. Samhliða uppbyggingu flugskýla á svæðinu hefur farið fram uppgræðsla svæðisins þannig að þar sem áður var ógróinn melur er nú grasi gróið svæði með 540x45 metra flugbraut (braut 07/25).

Flugvöllurinn á Tungubökkum er einkaflugvöllur Flugklúbbs Mosfellsbæjar. Afnot að honum er einungis heimil félögum í Flugklúbbs Mosfellsbæjar og gestum þeirra. Gestum flugvallarins ber að kynna sér ástand flugvallarins og þeirra aðstæðna sem þar ríkja áður en lent er á flugvellinum (Prior Permission Required, PPR).

Í gegnum tíðina hefur flugklúbburinn átt flugvél til afnota fyrir þá félagsmenn sem ekki eiga eigin flugvél eða fyrir þá sem þurfa á aukaflugvél að halda.

Þessar vélar hafa í gegnum árin verið: 

  • Piper J-3 Cub - TF-GEV (nú TF-CUP)
  • Piper PA-18 Super Cub TF-FKM. (síðar TF-ABJ)
  • Bellanca Citabria TF-TWA (seinna TF-MOS)
  • Cessna C-170 TF-MOS (síðar TF-TOM)
  • Cessna C-170 TF-GMG (síðar TF-OMG)
  • Piper PA-28-181 Archer II TF-RJC 

Nánari umfjöllun um klúbbflugvélar FKM er að finna á undirsíðunni "Klúbbflugvél FKM"
FKM notast við Goboko aircraft booking til að halda utan um bókanir á klúbbvélina.

Félagslíf klúbbsins samanstendur af ýmsum uppákomum árið um kring. Haldnar eru tvær lendingarkeppnir á vegum flugklúbbsins á hverju ári, svokallaðar Silfur-Jodel lendingakeppnir þar sem keppt er um Silfur-Jodel bikarinn. Þessar keppnir fara venjulega fram fyrsta fimmtudagskvöld í júní fyrri umferð og svo seinni umferðin fyrsta laugardag í september.

Frá lokum maí þar til í byrjun september sjá eigendur flugvéla á flugvellinum um kaffi og meðlæti á hverju fimmtudagskvöldi. Þar koma félagsmenn sama, ræða um lífsins gagn og nauðsynjar og fljúga ef veður leyfir. Allir eru velkomnir á þessi kaffikvöld, jafnvel þó menn séu ekki félagar í klúbbnum. Íbúar Mosfellsbæjar hafa verið duglegir við að heimsækja okkur á fimmtudagskvöldum á sumrin.

Á veturna eru kaffikvöldin einnig haldin á fimmtudagskvöldum eins og á sumrin og þá yfirleitt um það bil einu sinni í mánuði. Þá eru gjarnan sýnd myndbönd eða verið með myndasýningar frá atburðum sem félagsmenn hafa sótt. Á veturna eru líka haldnar nokkrar matarveislur fyrir félagsmenn, svo sem haustfagnaður, jólagleði, þorrablót, konukvöld og fleira í þeim dúr. Svo félagsstarf FKM er nokkuð líflegt.

Aðstaða FKM á Tungubakkaflugvelli í Mosfellsbæ er alveg einstaklega góð og skemmtileg. Enda er það ekki að ástæðulausu að oft er talað um að þar sé grasrót einkaflugs á Íslandi. Á Tungubökkum eru sjö flugskýli sem hafa að geyma tugi einstakra flugvéla og einnig er þar mjög gott klúbbhús sem notað er sem kaffistofa sem og samkomuhús til skemmtana og fundarhalda.

Flugklúbbur Mosfellsbæjar
Tungubakkaflugvelli
Pósthólf 2
270 Mosfellsbæ
Kennitala: 561085-0139
www.fkm.is 
Netfang: This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.