Hátíðin Flug&Fákar verður haldin þann 28 júlí á Egilsstaðaflugvelli.  Þetta er í annað skiptið sem hátíðin er haldin en mjög vel tókst til þegar fyrsta hátíðin var haldin árið 2022.  Gefum skipuleggendum orðið:

Ótrúlegt að hugsa til þess að nú í sumar verði tvö ár síðan að flughátíðin Flug&Fákar var síðast haldin á Egilsstaðaflugvelli. Hátíðin 2022 fór fram úr öllum okkar væntingum. Veðurguðirnir voru með okkur í liði, fjöldi flugvéla kom, um 1400 gestir mættu á flugvöllinn og vélar annaðhvort voru til sýnis eða sýndu listir sínar. Bandaríski herinn sendi P-8 kafbátaleitarvél til okkar sem auðvitað sló í gegn, ásamt því að vél Icelandair lenti og gat fólk skoðað hana með gestsauga í stað augum ferðalangsins eins og vanalega. Börn og fullorðnir nutu þess að skoða fornbíla, 4x4 jeppa, slökkvibíla, snjómoksturstæki, gamla traktora og fólk fylgdist með spyrnu milli bíls og flugvélar.
Í stuttu máli; ótrúlegur dagur sem við erum óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að njóta með ykkur.
Örvæntið ekki, því við ætlum að standa við gefin loforð og halda Flug&Fáka annað hvert ár og því eigið þið von á góðu á Bræðslu-sunnudaginn 28.júlí 2024. Þá munu vélar af öllu tagi vera til sýnis og jafnvel verða einhverjar nýjungar í ár þar sem við erum þegar farin að kíkja innum glugga á hverjum bílskúr í bænum og sjá hverju fólk lumar á sem gaman væri að skoða betur.
Það eru fáir staðir á landinu með jafnríka græjumenningu og við hér á Austurlandi, sást það greinilega á því hve ótrúlega margir sóttu hátíðina 2022 heim, sem gerði hana að stæstu bæjarhátíð ársins, þó frumraun væri.
Við vonumst til að sjá sem allra flesta.
VRÚMM, VRÚMM!
 
Vonandi sér sem flest flugáhugafólk af suðvesturhorninu sér fært að mæta.  Helst fljúgandi, að sjálfssögðu!